Harmsögur Sögu

Sá sem segir sögur, stjórnar heiminum. (HOPI)

Myndin mín
Nafn:
Staðsetning: Reykjavík, Iceland

Ég get drukkið tvo lítra af vatni á einni og hálfri mínútu og ekki ælt.

mánudagur, ágúst 30, 2004

Hvað ímyndaði Saga sér á leiðinni heim af æfingu?

Að hún myndi, á þessari sömu leið, fara að tína rifsber í leyfisleysi í garði ekki svo langt frá Gerplu-sjoppunni. Þegar hún væri búin að tína í rúmar þrjár mínútur myndi konan, sem kom og skammaði hana seinast fyrir að tína ber í leyfisleysi, koma aftur til að skammast. Þá myndi Saga skrökva því að hún þjáðist af berjasýki þ.e. að hún mætti undir engum kringumstæðum borða neitt annað en ber, helst frosin Dujardin ber. Síðan myndi Saga segja konunni að nú væri svo komið fyrir henni og fjölskyldu hennar að þau ættu ekki meiri peninga til að kaupa þessi rándýru Dujardin ber og því hefði hún neyðst til að stela rifsberjum til að halda lífi. Konan myndi sjá aum á langsveltu stelpunni og öllum að óvörum myndi hún tilkynna Sögu að hún ætti bróður sem væri einmit að flytja inn Dujardin berin dýru. Síðan myndi konan gefa Sögu ársbirgðir af Dujardin berjum svo hún hætti að stela berjum úr annarra manna görðum.

Fólk dagdreymir ýmislegt.

Jói brúni var frábær. Ótrúlegsta fólk fór í funk-trans. Ég lærði líka að textinn við I feel good er ca. svona:

Wow I feel good dururururu
I knew that I would´n, dururururu
I feel good I dururururu
knew that I would´n, dururururu
So good, dudu so good I got you dududududu ( en ekki: I got to puke!)

Hafið bak við eyrað að það er ekki gott að rugla mig í Rímíní eins og sumir virðast halda!

sunnudagur, ágúst 22, 2004

Þegar maður er nýbúin að horfa á útúrdrukkið fólk æla er óvenju krúttlegt að koma heim og horfa á tveggja ára pjakk með stjörnu gubba.

þriðjudagur, ágúst 17, 2004

Annríki


Í gær: ganga út á Nes
fara í sund
ganga heim
ganga niður í bæ
ganga heim
hjóla upp í KR
fara á þrekæfingu í fótboltanum
hjóla heim
hjóla út á Nes
fara á þrekæfingu í handboltanum
hjóla næstum heim
passa til hálf tvö að nóttu til
reiða hjól heim
lesa og sofa

Í dag: hjóla upp í Fossvog
taka upp grænmeti
hjóla heim
baða mig í sól
ganga niður í bæ
ganga heim
hjóla upp í KR
fara á fótboltaæfingu
hjóla heim
- Hér er ég nú
Á eftir að:
hjóla út á Nes
fara á handboltaæfingu
hjóla til Hildar Dana og hver veit nema við hjólum til Sigrúnar
hjóla heim
sofa og kannski lesa ef augun orka

Eins gott að ég er ekki í vinnu sem stendur!

Fróðleiksmoli póstsins: Ef þú öskrar í átta ár, sjö mánuði og sex daga þá hefur þú búið til næga orku til að hita upp einn kaffibolla.

sunnudagur, ágúst 08, 2004

Mig langar óstjórnlega að ….
… verða Fjallkonan. Ég hef ekki ákveðið neitt um framtíð mína nema þetta eitt - að ég vil og ætla mér að verða Fjallkonan. Best þætti mér að fá að verða alvöru Fjallkonan þ.e. ekki bara þessi 17 júní fjallkona heldur þessi sem býr í fönninni - Fjallkonan sem er nær himnesk, en það er ekki á allt kosið.
Ástæða: Það er bara svo óendanlega flott og fallegt.
… bíta í kinnarnar á forsetanum okkar. Mér þykir hann óheyrilega sætur og krúttlegur. Nú kunnið þið að spyrja ykkur hvað hafi fengið mig til að fyllast þessari undarlegu þrá.
Ástæða: Til að bræða hjarta mitt gerði Ólafur eftirfarandi:
-Gekk lúðalega, virtist voða æstur, vildi valhoppa en reyndi virðingar sinnar vegna að hemja sig. Útkoman varð gimpaganga.
-Gaf öllum sem hann mætti stórt Sólheimabros
-Verslaði í Heilsubúðinni.
-Keypti lífrænt ræktuð epli.
-Hélt eplapokanum þétt að brjósti sér með annarri hendi í stað þess að láta hann hanga niður með lærinu.
-Bað lífvörðinn um að bíða fyrir utan Blómabúð Binna. Það var sykursætt að sjá stóran durgslegan apa skoða útstillingar í blómabúð.
-Það að hann var líklegast að kaupa lífrænt ræktuðu eplin handa henni Dorrit sinni.
-Að gleðja hana gleður hann!
… framtíðarmaðurinn minn kaupi lífrænt ræktuð epli handa mér í Heilsubúðinni. Ég vil líka að hann gleðjist við að gleðja mig.
Ástæða: Mér þykir epli fallegur ávöxtur svo eru þau líka góð og hitt þarfnast engrar útskýringar.
… eignast fimm stúlkubörn
ástæða: svo ég geti nefnt þau: Stjörnurós, Hjartapanna, Larens, Guðsvísu og Hróðný í höfuðið á dúkkunum hennar Herdísar.
… eignast trampólín
ástæða: hoppa, hoppa, hoppa …
… borða kjöt
ástæða: svo ég geti beðið um væna flís af feitum sauð í fínu matarboði.
Fróðleiksmoli póstsins: epli, kartafla og laukur er allt eins á bragðið ef þú heldur fyrir nefið þegar þú borðar það!
Afhverju er blogger óþekkur við mig? Afhverju get ég ekki gert enter eða miðjað fyrirsögnina?

mánudagur, ágúst 02, 2004


Tár, bros og O.C.!
Ég náði hámarki kvenleikans áðan þar sem ég sat í góðra vinkvenna hópi, með súkkulaði í seilingarfjarlægð og táraðist yfir lokaþætti O.C. Mér leið eins og persónu úr amerísku gelgjumyndunum. Ég held ég þurfi að fara að taka í nefið eða e-ð svo ég verði aftur söm!

Eftir að hafa fylgst með vandræðagangi O.C. félaga finnst mér ég hafa það nokkuð gott þar sem ég er hvorki með barni né á við alvarleg fjölskylduvandamál að stríða. En þá fór ég að hugsa um mínar krísur í gegnum ævina. Kannski er erfitt að ímynda sér Ryan, Summer,Therishu eða Choen glíma við þær, en þær eru þó nær sannleikanum en þessi sápa:

Frá því ég man eftir mér - 3 ára:
-Á þessum aldri voru brjóstin hennar mömmu það besta sem ég vissi og sá möguleiki að Guðfinnur heimilislæknir plástraði yfir þau olli mér miklum áhyggjum.
3 - 5 ára :
-Áhyggjur yfir að vera ekki fyrst á klósettið á morgnanna urðu þó nokkrar þar sem ég varð snemma mjög kappsöm. Ég varð bálreið ef mamma dirfðist að fara á undan mér á klósettið þó svo að ég hafi verið sofandi og hún í spreng.
5 - 6 ára:
-Á þessum aldri fór ég á leikrit um ruslaskrímslið ógurlega sem át alla þá sem sóðuðu út. Í lok leikritsins var hverju barni gefin perla og sagt að fela hana. Ef ruslaskrímslið fynndi ekki perluna þá væri fjölskylda barnsins óhult. Því var ég öllum stundum að hlaupa heim til að athuga hvort perlan góða væri ekki örugglega enn á sínum stað því hver vill láta ruslaskrímsli ráða niðurlögum fjölskyldu sinnar?
-Fimm ára trúlofaðist ég Baldri. Við vorum miklir materíalistar og farin að safna okkur fyrir fyrstu íbúðinni á sjötta árinu.
Við eyddum mestum tíma í að smíða flugvél úr massívu timbri og knúsast. Mömmu hans var ekkert um þetta kelerí gefið svo við stálumst gjarnan inn í runna og rör til að fela ósómann. Eitt sinn áttum við líka eldheitar stundir í grænni laut við Hafravatn. Ég hafði þó gífurlegar áhyggjur af því að mamma hans kæmist að öllu saman því flugvélasmíðin gekk hægt og mátti af því draga að við værum kannski að smíða eitthvað annað… ! Áhyggjur yfir að Baldur yrði sterkari en ég voru líka fyrir hendi.
7 ára:
-Í einum myndmenntatíma í Landakotsskóla litaði ég mynd af grænni rós. Fyrr en varði var ég kölluð upp að kennaraborðinu og sagt að grænar rósir væru ekki til. Ég var vinsamlega beðin um að lita þær öðrum litum. Þetta fannst mér heldur súrt í broti og fullyrti að í Kína væru sko grænar rósir. ,,Þú ættir að sjá grænu rósabreiðurnar í Kína!" sagði ég kokhraust. Eftir þetta hafði ég töluverðar áhyggjur af því að upp um skrökvið kæmist.
8 ára:
-Þetta skólaár var Margrét Müller umsjónarkennari minn en hún hafði flust til landsins frá Þýskalandi í seinni heimstyrjöldinni. Þeir sem hafa séð Landakotsskóla vita eflaust að elsta byggingin hefur nokkra turna og í þeim efsta og mesta bjó Margrét. Margrét var lítil og grannvaxin, talaði með þýskum hreim og horfði ávallt hvasst á nemendur yfir brúnleit gleraugu. Margrét hafði e-n tímann lent í slysi því annar fótur hennar var að hluta til úr járni. Þegar hún gekk um heyrðist alltaf léttur skellur og marr. Margrét var í tveimur orðum mikill barnahrellir og til eru af henni margar sögur sem gætu eflaust fyllt heila bók en látum eina duga þar til í næsta pósti.
Í Landakotsskóla var nestistíminn tiltölulega stuttur og erfitt fyrir nemendur að klára nestið sitt. Kannski ekkert tiltökumál ef e-r annar en Margrét hefði kennt okkur. Ef e-r var enn að borða þegar hringt var inn í tíma var henni að mæta. Stundum kom það fyrir að lestratíminn var seinasti tíminn fyrir matarhlé og þannig var það þennan umrædda dag. Í bekk með mér var drengur sem átti erfitt og kunni t.d. ekki að lesa. Margrét lét okkur hin kenna honum til skiptis (sem útskýrir kannski að mörgu leiti hve seinn hann var í námi). Þennan dag var komið að mér og átti ég að fara með honum yfir næstu tvær opnur í lestrarbókinni. Þegar tíminn var búinn vorum við enn að og nestirtíminn stutti upphófst án þess að við hefðum lokið því þrekvirki að komast yfir heilar tvær opnur sem sögðu í mesta lagi: ,,Ari sá sól, sólin var gul….". Þegar við vorum loksins búin voru nokkrar mínútur eftir af nestispásunni. Í stresskasti reif ég upp nestið sem þetta árið var rúgbrauð með smjöri og kæfu og með því kókómjólk. Ég byrjaði að troða því í mig. Ég man hve bekkjarsystkini mín dáðust af hetjuskapnum og hvöttu mig til dáða. Margrét hratt upp dyrunum á kennslustofunni einmitt þegar síðasta hringingin var að dofna og allt brauðið var komið upp í mig (ótuggið). Hún leit hvasst yfir hópinn til að sjá hvort allir væru ekki örugglega búnir. Augu hennar staðnæmdist á pottaklipptu strákastelpunni sem sat með úttroðinn munn og reyndi af öllum mætti að halda brauðinu uppi í sér. En nú gat ég ekki meira, kúgaðist og spýtti loks brauðinu út úr mér. Afleiðingin var að ég missti um alla framtíð löngun í rúgbrauð með kæfu!
9-12 ára:
-Á þessum árum tókst mér að sannfæra sjálfa mig um að ég yrði dópisti þegar ég yrði stór. Þetta þótti öllum óþarfa áhyggjur, sérstaklega föður mínum, því í daglegu tali var ég farin að tala um ÞEGAR ég yrði dópisti það var ekkert ef lengur. ,, Pabbi, ÞEGAR ég verð dópisti þá áttu ekki eftir að sjá eins mikið af mér því ég verð líklegast meira úti en vanlega, þú skilur?" ég hafði rosalegar áhyggjur af því hvernig færi nú fyrir mér ÞEGAR ég myndi breytast í dópista!
13-15 ára:
-Áhyggjur af fjárans píptestinu sem við vorum skyldug til að taka á þessum árum. Þá helst að ég fengi minna en Herdís því við litum nánast á útkomuna sem mælikvarða á mannkosti.
-Samræmdu prófin skelfdu mig einnig mjög sem og önnur próf.
16 ára:
-Þetta ár sýktist ég af komplexaveikinni og fékk minnimáttarkennd yfir fáránlegustu hlutum. Svo engdist ég af áhyggjum af óendurgoldinni ást á stórum strákum.

Eins og þið sjáið þá er ég mjög svo áhyggjufull manneskja. Því ber að vera góð við mig og klóra mér á bakinu og syngja fyrir mig lagið Ást eftir Ragnheiði Gröndal.

Tilvitnun póstsins: Ég er að koma! - stundi Herdís þegar henni tókst næstum að ræsa túrbó X 313 sláttuvélina sem við notum í Blómálfunum.
Fróðleiksmoli póstsins: Hvítbaunir eru til í öllum stærðum og gerðum