Fyrir þá sem eru komnir með nóg af ómálefnalegri umræðu birti ég hér pistil sem mun líka birtast á www.vefritid.is:
...það sem fyrir okkur er haft...
Konur sitja enn aftarlega á merinni, stóðhestinum er þó meira lýsandi, hvað varðar laun og áhrifastöður. Áhrif kvenna í fjölmiðlum, eða öllu heldur óþolandi áhrifaleysi, er viðfangsefni þessa pistils.
Það velkist enginn í vafa um áhrif fjölmiðla. Þeir eru sterkt afl sem mótar okkur mikið. Þegar við horfum á valdamikla karla tala um það sem máli skiptir í Silfri Egils tökum við það inn: ,,Þetta eru mennirnir sem hafa vit á hlutunum", hugsum við. Þegar álitsgjafar og viðmælendur í Silfri Egils eru í 70% tilvika karlar þá hugsum við: ,,70% karlmanna hafa vit á hlutunum en aðeins 30% kvenna, merkilegt!". Vonandi eru þó flestir meðvitaðir um hversu illa þetta endurspeglar samfélagið.
Silfur Egils er ekki einsdæmi. Rannsókn sem gerð var við KHÍ árið 2005 og tók mið af sex fréttaþáttum eða fréttatengdum þáttum á tveimur sjónvarpsstöðum á RÚV og Stöð tvö leiddi í ljós að í einungis 21,7% tilvika voru viðmælendur eða þeir sem fjallað var um konur. Það gefur auga leið að svo mikil kynjaskekkja hefur áhrif á umræðuefni og sýnileika kvenna. Málsvörn Egils og annarra fréttastjórnenda felst í því að einungis sé verið að endurspegla valdastöðu samfélagsins. Gott og vel, en hver er skylda fjölmiðlafólks? Er hún ekki einmitt að gagnrýna, vera aðhald á valdakerfin, rugga bátnum og leitast við að halda uppi málefnalegri og lýðræðislegri umræðu? Það skiptir máli hver flytur okkur fréttirnar, kona eða karl. Það skiptir máli hver skýrir þær. Fjölmiðlar veita sýn á veröldina og þeir sem stjórna fjölmiðlum hafa það í hendi sér hvaða sýn þeir veita.
Hlutur kvenna í íslenskum dagblöðum er einnig afar rýr. Mun meira er fjallað um karla en konur og karlar eru mun oftar tilefni frétta en konur. Hlutfallið 30/70 gengur því eins og rauður þráður í gegnum allar fréttir og málaflokka. Það er einkum í minningargreinum og slúðurfréttum þar sem konur fá tiltölulega mesta umfjöllun en ekki þó það mikla að jafnræði náist. Já, þó þær stöllur Paris, Britney og Svala Björgvins uni sér ekki hvíldar fyrr en að hafa komist í blöðin fyrir ofdrykkju, píkuflass eða misþyrmingar á lögmálum tískunnar þá ná þær aðeins rétt í skottið á þeim Tom Cruise og Bjarna töframanni. Svo getum við ekki einu sinni dáið jafn oft og þeir...
Annað ekki síður merkilegt sem rannsóknir hafa sýnt fram á er að konur eru hlutfallslega fleiri í aldurshópnum 20-34 ára en karlar í öllum flokkum frétta í fjölmiðlum, þ.e. konur renna hraðar út en karlar. Þetta endurspeglar fréttamatið og t.d. það sem gerst hefur á ríkisútvarpinu. Þar eins og víðast hvar á fjölmiðlum véla karlar í stjórnenda- og millistjórnendastöðum um ráðningar annarra karla á meðan reynslumiklar konur í fréttamannastétt hrekjast þaðan. Ef konur yfir miðjum aldri hætta að skrifa fréttir gefur sig að umfjöllunarefnið er ekki konur yfir miðjum aldri. Hvað hefur orðið um allar miðaldra fréttakonur þessa lands? Hví hverfa þær af sjónarsviðinu um leið og þær hafa öðlast reynslu og eru komnar upp að hliðinni á körlunum: Sigríður Árnadóttir, Hjördís Finnbogadóttir, Björg Eva Erlendsdóttir, Anna Kristín Jónsdóttir, Kristín Þorsteinsdóttir – hvert hurfu þær? Eru gráhærðar fréttakonur ekki eins trúverðugar og gráhærðir fréttakarlar? Hvað segir það okkur ef það er ekki framtíð fyrir konur eftir fimmtugt í fjölmiðlum? Ofan á allt hitt?
Ójafn leikur?
Af þessu leiðir að sú hugsun læðist að mér að við séum komin í nokkurs konar fjölmiðlavítahring. Staðreyndin er sú að fréttakonum með langan starfsaldur og reynslu er einfaldlega ýtt út í horn á meðan karlarnir mega sitja í stólunum fram í andlátið. Andspænis þungavigtarkörlunum er svo stillt upp yngri (þori ég að segja; og fallegri) konum, sem þrátt fyrir að hafa margt til brunns að bera skortir kannski reynslu af argaþrasi og harki. Ójafn leikur sem kemur oft út á skjánum: ,,já, hún er sæt og virðist klár en...”. Þar af leiðandi virka konur léttvægari.
Ábyrgðin liggur aðalega hjá fréttaritstjórum og umsjónarmönnum viðtalsþátta. Það er þeirra að bregðast af alvöru við umfjöllun um rýran hlut kvenna í fjölmiðlum og skammta konum á öllum aldri stærri bita af súkkulaðitertu fréttamennskunnar. Vonandi verður það sem allra fyrst svo við þurfum ekki að svelta í næstum aðra öld.