Ojæjja, prýðisdagur í dag. Lungað úr honum mun ég eyða innandyra að læra enskar glósur fyrir skyndipróf. Ég mun þó fara út en þá aðeins til að gera heimaverkefnið mitt í fótbolta! Jú, þannig er mál með vexti að honum Mumma fótboltaþjálfara (sem var rekinn því við gátum orðið skotnar í honum en svo ráðinn aftur eftir að þeir sáu hvernig hann leit út. Nei, hoho plat hann var fenginn aftur því enginn annar var mögulegur.) blöskraði boltameðferð mín og brá á það ráð að kenna mér í eitt skipti fyrir öll að halda á lofti.
Á föstudaginn var gaman. Þó hræddi ég Sigrúnu, Hildi og Furu með óstöðvandi hlátri mínum. Síðar sama dag kom umræddur Mummi að sækja mig og keyra mig á æfingu. Í bílnum voru fyrir Íris (bestabarn) og Sandra. Þegar á Laugardalsvöll var komið var enn nokkur tími til stefnu þar til æfingin átti að byrja. Það varð sameiginleg ákvörðun að þessum tíma yrði eytt í svefn eða dorm undir rólegri tónlist. Eftir dágóða stund þegar ég og Íris vorum að festa svefn baular Sandra durgslega: ,,Ég þarf að HRAUNA!". Við þessa yfirlýsingu brá öllum í brún. Sandra litla var greinilega búin að smitast af þeim hræðilega og illviðráðanlega trukkavírusi. Stelpur sem iðka fótbolta, lyftingar og eða kúluvarp eru nefninlega í áhættuhópi. ,,Ha? þarftu hvað Sandra?" spurði ég forviða. ,,Ég þarf að reima." sagði hún. Ég hafði víst verið sú eina sem misheyrði svona svakalega og viðbrögð hinna voru víst bara ímyndun. Að þessu gat ég þó hlegið það sem eftir var æfingar. Íris og Mummi voru líka svo elskuleg að taka undir með mér þegar ég hafði greint þeim frá þessum skondna misskilningi.
Í gær kepptum við KR-stúlkur æfingaleik við Breiðablik. Melkorka (blika-hnáta) ætlaði að ráðast á mig. Það var reyndar nokkuð spaugilegt. Ég var nýbúin að tækla hana (löglega og mjög svo pent;) þegar hún tryllist af bræði. Hún stóð upp og ætlaði að hjóla í mig. Þó svo að ég sé a.m.k. höfðinu hærri skelfdi hún mig töluvert. Alla vega það mikið að ég tók á rás eins og mesta gunga og hún á eftir. Á hlaupunum kallaði ég: ,, Dómari! Dómari! Sjáðu hana!" þá hætti hún að elta mig og ég róaðist. Eftir þennan þrusuleik fór ég að keppa í handbolta á móti HK. Um kvöldið fór ég svo í mat til ömmu og mér til mikillar furðu var ekki boðið upp á slátur! Ha? Kunna sumir að spyrja sig. Tímdi amma þín að kaupa e-ð annað en slátur? En já, öllum til mikillar undrunar bauð hún upp á kjötsúpu og það góða. Þegar leið á kvöldið kom Sigrún stóra til mín og við héldum í teiti. Ójá, þar var stuð og þar var gaman þar var gott að vera saman. Óska ykkur litríks dags!
Harmsögur Sögu
Sá sem segir sögur, stjórnar heiminum. (HOPI)
Um mig
- Nafn: Harmsaga
- Staðsetning: Reykjavík, Iceland
Ég get drukkið tvo lítra af vatni á einni og hálfri mínútu og ekki ælt.
0 Ummæli:
Skrifa ummæli
Gerast áskrifandi að Birta ummæli [Atom]
<< Heim