Harmsögur Sögu

Sá sem segir sögur, stjórnar heiminum. (HOPI)

Myndin mín
Nafn:
Staðsetning: Reykjavík, Iceland

Ég get drukkið tvo lítra af vatni á einni og hálfri mínútu og ekki ælt.

þriðjudagur, apríl 27, 2004

Kvabb og kvein.
Ég er alls ekki löt þú þarna nafnlausi commentari. Letileysi er helsta orsök bloggleysis!

Annars var ég að fara í gegnum gömul tölvugögn og rakst á verkefni sem ég og Íris áttum að gera í umferðafræðslu. Verkefnið fólst í því að taka viðtal við e-n sem hafði lent í bílslysi eða e-n sem hafði haft bílpróf í meira en eitt ár. Verkefnið var sett fyrir með góðum fyrivara en eins og svo oft með svona verkefni eru þau látin sitja á hakanum. Þetta verkefni fékk að dúsa þar (á hakanum) langt úr hófi fram. Það var ekki fyrr en um kl. 11 kvöldið fyrir skiladag að ég og Íris mundum eftir verkefninu. Nú var illt í efni. Hvern var hægt að plata í viðtalstíma svona seint með allt of stuttum fyrirvara? Þá stakk ég upp á því að við myndum einfaldlega skálda e-t skemmtilegt viðtal. Íris (lengst til vinstri frá okkur séð) sem kann engan vegin að fara með ósannindi og er heldur heiðarlegri en ég var ekki jafn ánægð og ég með þessa tillögu. Frekjan í mér bar þó sigur úr bítum og úr varð þessi dramadella vægast sagt yfirdrifin og klisjuleg. Ekki bætti það hana hvað ég var dugleg að troða inn máltækjum sem eiga ekkert við:

Áfengi dregur dilk á eftir sér
Um miðjan janúar var náinn vinur minn að fara til Bandaríkjanna til að hefja lögfræðinám í einum virtasta háskóla landsins. Svona hóf viðmælandi okkar frásögn sína og hélt áfram: Við félagarnir höfðum ákveðið að halda honum veglegt kveðjuhóf og af því tilefni höfðu nokkrir af strákunum farið í Ríkið til að tryggja að stemmingin yrði sem best. ,,Lögfræðiefnið”, eins og við skulum kalla vininn, átti að fara í flug snemma morguns og var ætlunin að ég myndi skutla honum út á Keflarvíkurflugvöll í tæka tíð. Þess vegna tók ég þá ákvörðun að vera edrú þetta kvöld.
Þegar röskur klukkutími var í brottfarartíma lögðum við af stað úr Reykjavík. Úti var slæmt skyggni og hálka. Þessi góðvinur minn hafði fengið sér vel neðan í því og lét öllum illum látum. Ég lét á mig bílbeltið og náði með naumindum að fá þennan útúrdrukkna vin minn til að spenna sig.
Hann var mikið að taka utan um mig á leiðinni út á flugvöll, segja mér hvað honum þætti vænt um mig og hvað það yrði nú hræðilegt þegar hann væri farinn. Þegar við vorum vel á veg komnir byrjaði ,,Lögfræðiefnið”, að finna til ógleði sem endaði með því að hann gubbaði yfir mig. Við þetta missti ég einbeitinguna, leit af veginum, en ekki nema í örskamma stund.
Það reyndist þó nóg til þess að ég missti stjórn á bílnum sem fór minnst tvær veltur út af veginum.
Ég rankaði við mér hangandi í beltinu. Það hljóta að hafa liðið um tíu mínútur og ég gerði mér fljótt grein fyrir því að ég hafði misst meðvitund. Mér varð litið á vin minn sem lá hreyfingarlaus við hliðina á mér, alblóðugur. Ég flýtti mér að athuga hvort ég finndi eitthvert lífsmark. Þið getið rétt ímyndað ykkur hvað ég var feginn þegar ég fann veikan púls. Þetta var minn vonarneisti. Ég reif mig á fætur, þrátt fyrir að mér liði eins og ég væri á heljarþröminni, dró hann út úr bílnum og dröslaðist upp á veginn.
Þar sem að farsímar voru fágæt tæki á þessum tíma gat ég ekki hringt eftir hjálp. Heppnin var með mér og eftir skamma stund sá ég bíl nálgast. Ég náði að stöðva bílinn og sagði ökumanninum frá slysinu. Hann keyrði eftir hjálp og von bráðar kom sjúkrabíll sem flutti okkur á sjúkrahúsið í Keflavík. Læknarnir töldu öruggast að við værum fluttir til Reykjavíkur þar sem hægt væri að fá álit sérfræðinga. Þar kom í ljós að þetta var ekki eins slæmt og menn héldu, einungis rifbeinsbrot og vægir höfuðáverkar.
Ég var að vonum himinlifandi þegar ég frétti að þetta yrði ekki hans banabiti. Mín meiðsl voru heldur minni, ég brákaðist á öxl og fékk aðeins nokkrar skrámur. Þannig má segja að við sluppum báðir með skrekkinn – að þessu sinni að minnsta kosti. Hann komst til Bandaríkjanna mánuði síðar, náði að ljúka náminu með pompi og prakt og er nú virtur lögfræðingur. Það er af mér að segja að ég flutti inn til kærustunnar og seinna þetta sama ár giftum við okkur og höfum nú eignast tvö yndisleg börn. Báðir lærðum við tvennt af þessu slysi. Að blanda ekki saman áfengi og akstri og að beltin geta bjargað mannslífum.

Íris Björk Símonardóttir 10.Þ
og
Saga Garðarsdóttir 10.T



0 Ummæli:

Skrifa ummæli

Gerast áskrifandi að Birta ummæli [Atom]

<< Heim