Harmsögur Sögu

Sá sem segir sögur, stjórnar heiminum. (HOPI)

Myndin mín
Nafn:
Staðsetning: Reykjavík, Iceland

Ég get drukkið tvo lítra af vatni á einni og hálfri mínútu og ekki ælt.

mánudagur, mars 07, 2005

Sólborgarþáttur Ingvarsdóttur

(fyrri hluti)


Ég veit enga manneskju einlægari en Sólborgu Erlu Ingvarsdóttur. Ég kynntist Sólborgu best í níunda bekk þegar við vorum sessunautar. Í stærðfræði þóttum við algjör plága. Við reiknuðum nefnilega öll dæmin saman, fórum í sameiningu yfir þau lið fyrir lið og þuldum upphátt allar okkar reikningsaðgerðir. Þegar á leið tímann æstum við hvor aðra upp og vorum farnar að hrópa: ,, x plús 35 er þá jafnt og y mínus 78 ef prósentuhlutfallið er 35 og þá gerum við x plús... sem er þá jafnt og x sama sem 37*" svo klöppuðum við fyrir okkur sjálfum og urðum enn æstari við hvert dæmi sem við gátum leyst. Við kenndum hvor annarri að meta gleði stærðfræðinnar, hlógum dátt þegar útkomur langra dæma voru núll og fleira í þá áttina. Þetta var einu tímarnir á því ári sem ég var skömmuð fyrir að vera of áhugasöm um námsefnið.

Í dönskutíma í níunda bekk fengum við það hópverkefni að búa til búðarauglýsingu á dönsku. Stelpurnar sem voru einnig með mér og Sólborgu í hóp vildu endilega gera auglýsingu fyrir prinsessukjólabúð eða búð sem seldi kjóla fyrir amerískt lokaball. Þær klipptu og klipptu út sem mest þær máttu og voru mjög ákafar að gera bleika og væmna auglýsingu og þeim fannst því ekkert fyndið þegar við Sólborg stungum upp á því að setja úrklippu af kjötskrokk og kodakfilmu á auglýsinguna. Sólborg kunni illa að klippa og þegar hún fékk kjól til úrklippurnar hvarf ýmist önnur ermin, höfuð fyrirsætunnar eða fótur. Því var ákveðið að Sólborg skyldi líma. Þá varð hún bandsjóðandivitlaus. Þvílíkt misrétti sem hún var beitt. Hennar hefndarverk var að líma filmur og sauðskrokka, sem ég hafði klippt út, við hliðina á dúllulegum kjólum og yfir höfuð fyrirsætanna, sem hinar stelpurnar höfðu klippt út af mikilli vandvirkni. Þetta þótti mér ógurlega fyndið og hló eins og vitleysingur. Sólborg misskildi þetta sem illkvittni eða e-ð í þá áttina því hún byrjaði að væla: ,,Það er ekkert gaman að kunna ekki að klippa! Frá því að ég var lítil hef ég ekki mátt klippa í svona hópvekefnum því ég er sögð klippa svo illa!"
Stelpurnar sýndu Sólborgu enga samúð, en héldu tuðandi áfram að kroppa kodak filmu af andliti Naomi Campell. Sólborg var of upptekin í eigin sjálfsvorkunn og sá ekkert spaugilegt við aðstæðurnar. Hún fór í fýlu út í allt og alla. Það sem eftir var dags hafði hún allt á hornum sér og þóttist t.d. hafa heyrt mig kalla sig tík. Það, að hún héldi að mér þætti hún tík, frétti ég svo í heimspekitíma og varð ill, því ég myndi aldrei undir neinum kringumstæðum kalla Sólborgu tík því ,,Sólborg" og ,,tík" eiga einfaldlega ekki heima saman í sömu setningu varla málsgrein og tæpast í efnisgrein. Nú þurfti ég alla vega að fá útrás og því fékk ég vinsamlegt leyfi kennarans til að fara á klósettið. En nei ég fór ekki á klósettið, ég stillti mér upp fyrir framan næsta vegg og dúndraði í hann, fyrst innan fótar en hafandi ekki fengið næga útrás við það spark þrykkti ég sem mest ég mátti með tánni í vegginn. Eftir smá stund fór táin að bólgna og gangan varð sársaukafull. Þegar ég sneri aftur í tímann vildi ég ekkert kannast við að haltra og eftir skólann gekk ég heim. Mamma dró mig svo til læknis þar sem mér var tilkynnt að stóratáin væri brotin. Eftir þetta fletti ég upp orðinu gönur í orðabók svo ég vissi nú hvert skapið hefði hlaupið með mig.

*Þetta er bulldæmi með bullútkomu sem ég notaði bara svona sem dæmi. Gaman, gaman! Dæmi notað sem dæmi! Nei, betra er að segja til útskýringar. Já ég notaði þetta bulldæmi til útskýringar á hátterni mínu og Sólborgar.

0 Ummæli:

Skrifa ummæli

Gerast áskrifandi að Birta ummæli [Atom]

<< Heim