Harmsögur Sögu

Sá sem segir sögur, stjórnar heiminum. (HOPI)

Myndin mín
Nafn:
Staðsetning: Reykjavík, Iceland

Ég get drukkið tvo lítra af vatni á einni og hálfri mínútu og ekki ælt.

sunnudagur, nóvember 07, 2004

Ég er hamingjusöm! Virkilega hamingjusöm! Ég veit ekki af hverju,en ég bara er það. Það er stærðfræðipróf á morgun og það truflar mig ekkert. Ég ætla bara að gera mitt besta, meira get ég ekki gert. Það besta verður bara að vera nóg. Svo eru mannkostir ekki mældir í einkunnum.

Danska er furðufallegt mál. Allt verður svo ljúft þegar það er sagt á dönsku. Í raun finnst mér danskan margfalda gildi orða og gera merkingu þeirra einlægari. Ég vil að e-r tjái ást sína á mér á dönsku. Já danska er mál ástarinnar.

Mér þykir líka vænt um marga. En ég er ekki nægilega dugleg að sýna fólki hvers virða það er mér. Í þessari viku ætla ég að reyna að bæta úr því og ég ætla líka að reyna að fara fyrr að sofa.

Ég er væmin og áskil mér fullan rétt til þess. Ég lái ykkur ekki ef þessi póstur vekur með ykkur velgju, en það mun lagast.

Þorri þriðju bekkinga hefur óbeit á mér því ég var harðorð við einn þeirra. Á næstu kóræfingu ætla ég að reyna semja frið og vona að hann og hans hyski fyrigefi mér. Mér finnst samt hallærislegt að vera með enniskomplexa.

Gunnar bekkjarbróðir er ljúfmenni, mjúkmenni og heljarmenni.

E.s. Það er byrjað. Frænka mín var að hringja núna í mömmu. Ég kallaði hátt svo hún heyrði: ,,Harpa mér þykir vænt um þig!". Pabbi kom strax til mín tók utan um mig og horfði áhyggjufullur á mig og spurði: ,,Saga, er allt í lagi? Líður þér e-ð illa?" Það tók mig rúmlega mínútu til að fá hann til að sleppa mér og trúa því að ég væri heil á geði. Ef svona heldur áfram verð ég skólafíflið í lok vikunnar. Spurning hvort ég segi ekki bara þeim sem ég er handviss um að viti það ekki, að mér þyki vænt um þá og vona að þeir verði ekki of skelkaðir.

0 Ummæli:

Skrifa ummæli

Gerast áskrifandi að Birta ummæli [Atom]

<< Heim