Hann kyndugi pabbi
Um daginn ætlaðum Herdís og ég að hafa það huggulegt fyrir framan sjónvarpið þangað til tölvan yrði laus. Hættum við þó fljótt við sjónvarpsglápið þar sem ekki skárri mynd en Mjallhvít og dvergarnir sjö var í boði (ég og Herdís erum náttúrulega allt of þroskaðar fyrir svoleiðis mynd!). Á leiðinni úr stofunni mættum við pabba í dyrunum með nýsmurt brauð:
pabbi: Sjáið brauðið mitt er það ekki flott? Getið hvað er á því.
Herdís: ojj
ég: Uhh... gorgonzolaostur og hrátt egg en ekki ertu að fara að horfa á sjónvarpið? Það er bara verið að sýna Mjallhvíti og dvergana sjö.
pabbi: Ha? Er hún byrjuð? Færið ykkur ég vil ekki missa af!
Svo skaust hann inn í stofu. Daginn eftir fullyrti hann að þetta hefði verið besta Disneymynd sem hann hefði séð og leikararnir afbragð. Einu sinni var pabbi líka að keyra mig á handboltaleik og var að fá sér smint (mynturnar):
pabbi: Viltu ESS-mint?
ég: Meinaru smint?
pabbi: nei ESS-mint
ég: Þetta heitir smint!
pabbi: Nei, það stendur ESS-mint!
ég: Það stendur líka ESS-aga en maður segir Saga.
pabbi: viltu ESS-mint eða ekki?!
Pabbi sagðist líka hafa farið að sjá Kill Billy. En nóg af pabba í bili. Ég og Herdís komumst sem sagt í tölvuna og sömdum þessa auglýsingu:
Blómálfar!
Tveir grænfingraðir, glaðlyndir dugnaðarforkar í leit að illa hirtum garði verða á sveimi í hverfinu í sumar. Ef garðinn vantar aðhald og eða félagsskap ekki hika við að hafa samband við blómálfana. Þeir koma þá að vörmu spori og fríska upp á garðinn gegn vægu gjaldi (útvegum verkfæri sjálfar).
Hægt er að ná í okkur í síma:8208897(Saga) og 8659996(Herdís)!
Við þurftum að breyta upphaflegu útgáfunni þar sem hægt var að misskilja hana sem við værum portkonur að auglýsa okkur í dulmáli og garður væri myndlíking á vissum líkamsparti. Setningahlutar eins og ,, Komum sjálfar með öll tæki og tól." eða ,, Erum við síman núna!" voru klipptir út. Þessari auglýsingu fylgdu svo tvær myndir sem ég get ekki birt en geri seinna því þær eru nokkuð skemmtilegar.
Ég var í enskuprófi í dag. Böl og beyglur ég þoli ekki ensku. Í stílnum þurfti að snúa þessari setningu yfir á ensku: Hann bjó í stóru húsi í úthverfi. Úthverfið var e-ð að vefjast fyrir mér og að lokum var þetta það besta sem ég gat kreist fram: He lived in a big house in the hood. Svo þar sem ég mundi að úthverfi byrjaði á sub... bætti ég við: He lived in a big house in the hood/subject!
Fróðleiksmoli dagsins: Það örvar heilann að skræla epli.
Eigið litríkan dag.
Harmsögur Sögu
Sá sem segir sögur, stjórnar heiminum. (HOPI)
Um mig
- Nafn: Harmsaga
- Staðsetning: Reykjavík, Iceland
Ég get drukkið tvo lítra af vatni á einni og hálfri mínútu og ekki ælt.
0 Ummæli:
Skrifa ummæli
Gerast áskrifandi að Birta ummæli [Atom]
<< Heim