Harmsögur Sögu

Sá sem segir sögur, stjórnar heiminum. (HOPI)

Myndin mín
Nafn:
Staðsetning: Reykjavík, Iceland

Ég get drukkið tvo lítra af vatni á einni og hálfri mínútu og ekki ælt.

laugardagur, október 21, 2006

Rýn

Þegar ég var í níunda bekk tóku mamma og pabbi eftir því að ég var farin að rýna á hitt og þetta og tóku mig því til augnlæknis. Ég var greind væg-nærsýn með örlitla sjónskekkju. Eftir tár, fullyrðingar um kærastaleysi og almennan ljótleika féllst ég þó á að fá mér gleraugu. Þau voru og eru ljót. Svört og eggjalaga. ,,Klassísk” fullyrti pabbi minn. Þetta hafði það þó í för með sér að notaði gleraugun minna en ætlað var, miklu minna. Ég set t.d. gleraugun ekki upp í bíó fyrr en búið er að slökkva ljósin og myndin byrjuð svo tek ég þau af í skyndi um leið og birtir í salnum. Þau eru nefninlega lýti. Ljót, ljót,ljót.

Nú, fimm árum seinna, nota ég þau enn minna. Ég sit á fremsta bekk í skólanum, sé ekki skýrt og nota gleraugun aðeins ef ég gleymi þeim ekki heima. Ég æfi fótbolta og handbolta, ég sé engin andlit á vellinum og ég nota gleraugun ekkert, aldrei, hvergi. Ég er hinsvegar orðin mjög flink að þekkja líkamburði og hlaupatakta í íþróttunum og sirka út markið. Einnig hef ég tamið mér leið til að sjá í fókus í skólanum með því að mynda lítið gat með puttunum og horfa í gegngum það. Það er þó frekar seinvirkt. Hraðvirkara er krossgátuaðferðin, ég sé klessur á töflunni, þær eru sex, í þeim eru tveir til fjórir tiltölulega skýrir stafir; tvö A og J og kannski R, við erum í líffræði, orðið er ,,hjarta”. Svo nota ég gleraugun ekkert utan skóla og bíóhúsa (í þau fáu skipti sem ég horfi á sjónvarp færi ég mig bara alveg upp að því).

Í fyrradag dró Ásgeir mig í sjónpróf. Í stuttu máli greindist ég með 20% sjón (jákvæðara en að segja 80% blind) sökum mikillar nærsýni og meiri sjónskekkju.

Ég er búin að velja mér gleraugu. Þau eru ekki svört og ekki eggjalaga. Pabba finnst ég bara eiga að skipta um gler í gömlu, þessum klassísku. Ég held að hann skilji ekki vandann.

0 Ummæli:

Skrifa ummæli

Gerast áskrifandi að Birta ummæli [Atom]

<< Heim