Ég er orðin alveg rosa léleg að blogga. Það er bara þannig að þegar ég hef slugsast við að blogga í e-n tíma og sögurnar fara að hrannast upp þá er svo erfitt að koma sér að verki. Þessi frestunarvítahringur er einmitt versti óvinur námsmanna. Lukkulega fer ekki eins illa fyrir mér og þeim ef ég slæpist.
Um daginn fór ég í 24 klukkutíma ævintýarkapp. Þrátt fyrir að hafa synt 2 km, línuskautað 30, gengið 20, hlaupið 10, kanóað 12 á móti straum og klifrað e-a metra upp og niður allt á mettíma þá var andlegi þáturinn helmingi erfiðari. Þannig var nefninlega mál með vexti að ég var með stráki að nafni Casper í liði. Glöggir lesendur muna kannski eftir því að e-n tímann sagði ég að hann væri Frímann Gunnarsson í fallegum líkama. Það er alveg satt. Sjálfur Jón Gnarr ætti í fullu fangi með að leika hversu ömurlegur hann er. Sjálfsánægja hans þekkir engin takmörk og hann var þess fullviss að bæði áttavitinn og kortið væru bilað alla leiðina. Á endanum olli það að sjálfsögðu að hann týndi okkur í myrkum skógi, fékk reiðiskast og hringdi í skipuleggjara kappsins til að kvarta og öskra. Þetta skeði allt innan við kílómetra frá marklínunni. Afleiðingar símtalsins voru þær að við duttum úr keppni því það er bannað að nota síma. ÞAÐ ER HONUM AÐ KENNA AÐ ÉG VANN EKKI! Í annað sinn. Þið getið rétt ímyndað ykkur hvað þessi maður er í litlu uppáhaldi hjá mér.
Eftir þessar andlegu raunir komu foreldrar mínir í heimsókn til að setja plástur á sálina. Þau buðu mér í leikhús, brunch, bíó, súkk, mat, hópknús og svo fleira og fleira. Tímasetningin hafði ekki getða verið betri (fyrir utan að mamma var með ælupest). Mér finnst ég eiga bestu foreldra í heimi (öllum kjánalegum andmælum verður skilyrðislaust eytt úr kommentkerfinu). Hér eru svo krúttin:
Hér er fallega mamma mín í leikhúsi. Fimm "hæ fæv" fyrir þá sem geta giskað á á hvaða leikriti við vorum.
Hér er svo hann pabbi í essinu sínu að tala um góðan mat á meðan hann borðar góðan mat.
Í fyrradag var síðan galakvöld. Það varð skemmtilegra en ég hafði ímyndað mér. Esben dró mig inn á fatlaðaklósettið til að biðja mig um að vera deitið sitt og svo sótti hann mig spariklæddur niður í myrka hjólageymsluna kvöldið eftir. Til að setja punktinn yfir i-ið í órómantík þá gaf ég honum þrjár kanilstangir og hann færði mér gullstjörnu sem var reyndar bara smá sætt. Þannig reyndum við markvisst að draga sem mest úr almennu ógeði sem fylgir svona "prom-böllum". Fyrir utan að vera langmyndalegasta parið sópuðum við líka að okkur verðlaunum og titlum. Hann fékk verðlaun fyrir bestu morgenasembly (kókaíntransdans...) og ég fékk titilinn "most special in Gerlev ´07" og "the entertainer of Gerlev ´07". Til að fullkoma kvöldið vann ég svo Casper í bakkamon með því að fá níu tvennur úr tólf köstum. Sjaldan hef ég séð jafn rauðan og reiðan mann. (Ef öll þau skipti sem ég keppti í handbolta undir leiðsögn Alfreðs Arnar Finnsonar eru ekki talin með). Ég og Esben Wotjek og Kate, besta par skólans og ef ekki allrar austur Evrópu
Trine og Szimon bregða á leik. Þau eru bæði svo skrýtin og skemmtileg að ég ætti að flytja þau heim til að gera Ísland að enn skemmtilegri stað.
Morguninn eftir gamanið kom hann Szimon og færði mér þessar eggjahvítur í morgungjöf. Já, það verður ekki annað sagt en að Szimon kunni að heilla ungar stúlkur upp úr skónum. Sjálfur borðaði hann rauðuna enda er eggjarauða uppáhaldsmaturinn hans. Sönn ást.
Og vegna þess að ég er komin í gott skap við að rifja þetta upp þá ætla ég að lofa þremur bloggum fyrir föstudag (þetta meðtalið). Ég skal ekki borða súkkulaði í ár stend ég ekki við skrifuð orð mín! Hana, nú hef ég gloprað því út úr mér!
0 Ummæli:
Skrifa ummæli
Gerast áskrifandi að Birta ummæli [Atom]
<< Heim