Harmsögur Sögu

Sá sem segir sögur, stjórnar heiminum. (HOPI)

Myndin mín
Nafn:
Staðsetning: Reykjavík, Iceland

Ég get drukkið tvo lítra af vatni á einni og hálfri mínútu og ekki ælt.

sunnudagur, maí 21, 2006

City of God er falleg. Tónlistin úr henni líka. Gylltu bökin líka.

Sumarið er nú komið fyrir alvöru. Kláraði prófin á miðvikudaginn. Takk metnaður í jólaprófum. Fyrir kl. eitt þann daginn var ég atvinnulaus og í prófum. Í miðju prófi hringdi síminn. Ég slapp þó við þá eldraun sem mér skilst að fylgi símhringingum í prófi. Takk Maja Loebell. Eftir próf hringdi ég aftur og er nú komin með vinnu. Reyndar verkamannavinnu og reyndar í Breiðholti, reyndar líka í tíu tíma á dag og byrja reyndar klukkan hálf átta. Dagarnir munu sumsé vera svona:

6:30-7:00 vakna og laga mér hafragraut, te og útbý nesti.
7:00-7:30 hjóla upp í Jafnasel í Breiðholti
7: 30-18:00 vinn við þakaviðgerðir, leiktækjamálun eða arfatínslu.
18:00-80:30 hjóla heim

Sagði fótboltaþjálfaranum mínum frá vinnutímanum. ,,Frábært þá get ég haft æfingar klukkan sjö og þú nærð að grípa þér e-ð að borða í leiðinni" Eftir það skipaði hann okkur að spretta völlinn endilangan tólf sinnum. Þannig að..

18:30-18:45 grípa mér e-ð að borða.
18:45-19:00 hjóla upp í KR
19:00-21:30 sparka í bolta
21:30-22:00 leiða hjólið mitt hægt heim og anda djúpt niður í maga
22:00-22:15 tuða í heimilsfólki og vera erfið sökum þreytu og svengdar
22:15- og fram eftir : frjáls tími

Það er reyndar bót í máli að ég vinn úti. Úti er góður staður. E-ð svo stór og mikill.

Fram að þessu hef ég þó ekki einungis legið yfir bókum og velt fyrir mér tilgangi lífsins. Jú, ég er reyndar alltaf að velta fyrir mér tilgangi lífsins. En ekki alltaf heima hjá mér. Ég hef:

 • Farið í ófáar sundferðir (Salalaugin komin í uppáhald)
 • Sungið mig í gegngum munnlegt frönskupróf við undirleik Aldísar
 • Hjólað bæinn þveran og endilangan
 • Sprett, sparkað, tæklað og gert allt sem mér er sagt að gera í fótboltanum
 • Haldið bolta á lofti oftar en sjötíu og fjórum sinnum
 • Gengið eftir súkkulaði, vinum og kristal plús
 • Legið hálfber úti á svölum og hlustað á franska tónlist
 • Notið hins framandi þurramisturs frá Póllandi
 • Drukkið Neskvikk eins og ég ætti það sjálf
 • Lært 31 franskan málshátt
 • Borðað Jonagold epli (reyndar komið í sama flokk og tannburst, piss og fleira sem er mér eðlislægt)
 • Kallað stelpuna sem er með mér í fótbolta Fylgju. Mig grunar samt að hún gæti heitið Bylgja, annað væri e-ð svo anatómískt.
 • Uppgötvað samansafnaða orlofið mitt upp á 39 þúsund og sett það á kort. Nú á ég alltaf nóg fyrir kókoskjöttum, kakói og hórum.
 • Róið færeyskum handsmíðuðum bát út á rúmsjó. Mamma og vinkonur hennar ætla að vinna róðra-keppni á sjómannadaginn. Helstu keppinautarnir eru víst löggukonurnar og færeysku konurnar sem búa yfir einhvers konar leyni-rói, eða svo er tap seinasta árs útskýrt fyrir mér. Þess má geta að ég er sú eina sem er undir 45 ára aldursmörkunum.
 • Dansað og blæjubílast með ofurrapparann Gísla Djammdal, Pjölla Klikk og Ungfrú X
 • Saknað Sigrúnar og viljað fá hana til mín í sól, fliss og einkahúmor
 • Saknað…

Ég ætla til útlanda í sumar. Oft. London, París… Marmaris. Svo finnst mér tilvalið að gefa ykkur nasasjón af heimilisröflinu hér. Röfl dagsins tengist vanafestu og fullkomnunaráráttu pabba.

Pabbi: Saga, settir þú salatið í hægri skúffuna í ískápnum?
Ég: Nei, ekki minnist ég þess
Pabbi: Hver hefur eiginlega sett salatið í hægri skúffuna. Salatið er alltaf í vinstri skúffunni.
Ég: Það skiptir engu máli, pabbi. Flyttu það bara yfir.
Pabbi: Það þýðir ekkert að setja salatið í hægri skúffuna. Maður á að geta gengið að svona hlutum vísum. (labbar tuðandi út í loftið burt)

e.s. eins og vesti eru strákum heit, þá brenna sjóliðsbúningar.


0 Ummæli:

Skrifa ummæli

Gerast áskrifandi að Birta ummæli [Atom]

<< Heim